Iðjuþjálfun.


Fagþróun iðjuþjálfunar hefur í gegnum tíðina breyst töluvert og er háð samfélaginu, menningunni og stjórnsýslunni. Upphaf iðjuþjálfunar má marka þegar geðlæknar urðu fyrir áhrifum verkefnisins The moral treatment movement. Þá hvöttu þeir sérfræðinga innan læknisfræðinnar að skoða tengslin milli iðju og heilsu með tilliti til meðferðarlegs gildis. Fyrsti fagaðilinn sem starfaði sem iðjuþjálfi var hjúkrunarfræðingur sem starfaði undir leiðsögn lækna og hlutverk hans voru óljós. Því má segja að fagmennska iðjuþjálfunar hafi verið undir stjórn annara fagstétta og á þessum tíma hafi vantað skýra stefnu um hvert hlutverk og tilgangur iðjuþjálfunar væri.

Frá því að hugmyndafræði iðjuþálfunar fór að taka á sig mynd hefur hlutverk, gildi og tilgangur verið að þróast og fagsjálfið styrkst. Fagsjálf iðjuþjálfunar nær yfir þá þekkingu sem viðkomandi hefur lært í námi og fengið þjálfun í og þeirri vitund sem hann hefur tileinkað sér í námi og með reynslu. Það hefur alla tíð verið áskorun fyrir iðjuþjálfun að öðlast virðingu innan heilbrigðis- og félagsþjónustukerfisins. Eftir að rannsóknir á iðju og nýjar iðjukenningar voru settar fram með áherslu á einstaklinginn sem iðjuveru, er lögð áhersla á mikilvægi iðju til að efla heilsu og færni, stuðla að jafnrétti einstaklinga og að allir í samfélaginu fái jöfn tækifæri til þátttöku í iðju. Í dag getur iðjuþjálfun sem faggrein verið ánægð með vel ígrundaða hugmyndafræði, sem sameinar iðjuþjálfa allstaðar í heiminum og styrkir fagsjálf þeirra óháð starfsvettvangi.

Iðjuþjálfar eru menntaðir í að skilja og skoða vandamál hvers og eins, þeir leggja mikla áherslu á að finna einstaklingsmiðaða þjónustu í samvinnu við skjólstæðinga sína. Hlutverk þeirra er meðal annars að finna leiðir með einstaklingunum sem auðvelda þeim að taka þátt í iðju sem þeim er mikilvæg. Því byggja hugmyndir iðjuþálfunar á því að það sé mikilvægt fyrir heilsu og vellíðan fólks að stunda iðju sem er þeim mikilvæg, samræmist þeirra þörfum og eru í takt við kröfur og venjur samfélagsins. Ef við hugsum um okkur sjálf þá hefur sú iðja sem við tökum þátt í í daglegu lífi mikil áhrif á það hvernig við horfum á okkur sjálf og mótum. Það hefur sýnt sig að færni og þátttaka í iðju hefur ekki eingöngu jákvæð áhrif á skjólstæðinginn sjálfan heldur einnig á fjölskyldu hans og samfélagið í heild.

Heimildir:

  • Clouston, T. J. og Withcomb, S. W. (2008). The Professionalisation of Occupational Therapy: a Continuing Challenge. British Journal of Occupational Therapy, 71, 314-320. Sótt af http://bjo.sagepub.com/content/71/8/314.full.pdf
  • Sigríður K. Gísladóttir og Þóra Leósdóttir. (2011). Hlutverk og starfsvettvangur. Í Guðrún Pálmadóttir og Snæfríður Þóra Egilson (ritstjórar), Iðja heilsa og velferð: Iðjuþjálfun í íslensku samfélagi (bls. 55-66). Akureyri: Háskólin á Akureyri.


Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *