Takk mamma <3

Sæl öll, mig langar að segja ykkur aðeins frá henni Siggu minni sem ég hef auðvitað þekkt alla hennar ævi, ég er jú mamma hennar. Alla tíð hefur hana langað til að gefa af sér til þeirra sem ekki hafa sömu aðstöðu í lífinu og við flestöll, hana hefur dreymt um að sinna sjálfboðastarfi og kynnast fleiri menningarheimum. Ég hef sagt henni frá unga aldri, að hún geti það sem hún ætli sér og eigi að láta drauma sína rætast, hafi hún tækifæri til þess og það hefur hún svo sannarlega gert á sinni fallegu ævi. Eftir nám sitt í Iðjuþjálfun við HA ákvað hún að láta langþráðan draum sinn rætast. Á haustdögum fór hún af stað í ferðalag á ókunnar slóðir með þriggja mánaða áætlun og byrjaði auðvitað á því að vinna sem sjálfboðalið í bænum Moshi í Tansaníu. Að því loknu ætlaði hún að ferðast til Sri Lanka og enda ferðina undir Himalajafjöllunum við ávaxtatínslu og slökun. En stundum breytast áætlanir og það varð raunin í Moshi, þegar hún áttaði sig á því að hún var að vinna þarft og mikilvægt starf við iðjuþjálfun hjá BCC, hjálparsamtökum sem reka dagheimili fyrir börn með færniskerðingar í Moshi, var ekki aftur snúið.


BCC samtökin hafa breytt lífi margra barna í Moshi. Börn með færniskerðingar voru falin fyrir samfélaginu, meðlimir samtakanna gengu í hús og buðu foreldrum þeirra að koma með börnin á dagheimili þeim að kostnaðarlausu. Þessi úrræði gáfu foreldrunum færi á að stunda vinnu, taka þátt í samfélaginu og sjá fjölskyldum sínum farborða. Oft á tíðum hurfu feðurnir úr lífi fjölskyldunnar, því á þessum slóðum er það skömm að eiga færniskert barn og kallar yfir fjölskylduna reiði guðanna, og þá er móðirin ein eftir til að hugsa um fjölskylduna. Þarna gat Sigga nýtt nám sitt og þekkingu til að gera áætlanir með börnunum og starfsfólki dagheimilanna til að auka lífsgæði þeirra. Það varð því ekkert áframhald á fyrirhuguðu ferðalagi hjá henni Siggu, heldur hélt hún áfram sjáfboðastarfi sínu í Moshi og starfaði þar í 5 mánuði í stað þeirra 5 vikna sem upphaflega var fyrirhugað. BCC rekur 11 dagheimili og Sigga mín hefur nú verið á tveimur þeirra og búin að gera færniáætlanir fyrir 15 börn og útbúa skynúrvinnsluherbergi með starfsfólkinu til að vinna markvisst með börnunum á dagheimilunum. En hennar verki er ekki lokið, BCC vill fá hana aftur út til að halda áfram og fylgja eftir því sem hún var búin að gera sem er svo mikilvægt fyrir börnin. Það var mér því mikill heiður að fá að taka þátt í stofnun samtakanna Gaia jafnrétti fyrir alla/Gaia equlity for all og heimasíðunni gefa.is sem er fyrsti stafur hvers orðs í enskaheitinu á samtökunum. Þar ætlum við að birta fréttir og fróðleik af þeim verkefnum sem samtökin taka að sér.


Fyrst verkefnið er að styðja Siggu til að fara aftur til starfa hjá dagheimilum BCC. Upphæðin er fyrir húsnæði og fæði fyrir hana í 6 mánuði. Við vonum svo sannarlega að það gangi upp hjá okkur því við vitum að þörfin er mikil og okkar framlag skiptir máli. Í næsta verkefni vonumst við svo til að geta safnað fyrir þaki á eitt dagheimilið því þegar það var byggt nægðu peningarnir ekki til að setja þak á húsið og því fer starfsemin þar fram undir stráþaki sem er frekar erfitt og ónotalegt, sérstaklega þegar rigningartímabilið gengur í garð. Verkefnin eru næg og mikil þörf er á fagfólki til starfa sem geta lagt til þekkingu sína af heilum hug við að bæta lífsgæði barnanna á þar og vonumst við til að geta stuðlað að því með stofnun samtakanna.


Við gerum þetta auðvitað ekki ein og treystum á þátttöku ykkar og viljum því vekja athygli á þessu verkefni og óskum eftir stuðningi frá sem flestum bæði fjárhagslegum og með því að vekja athygli á, facebook síðu samtakanna GAIA jafnrétti fyrir alla, með því að biðja ykkur að lika við og deila, og á heimasíðunni gefa.is. Þar er að finna upplýingar um samtökin og þar segjum við frá framgangi verkefna og næstu skrefum.


Við höfum nú sett að stað söfnun https://www.karolinafund.com/project/view/1676 þar sem við vonumumst til að gefa verkefninu tækifæri til að verða að veruleika. Eins og margoft hefur sannast þá gerir margt smátt oft eitt stórt og vona ég að þið viljið taka þátt í því með okkur.

Kærar þakkir til ykkar allra, Guðfinna Steingrímsdóttir.1 thought on “Takk mamma <3”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *